Hvers vegna?

Er eitthvað athugavert við stjórnsýsluna í Kópavogi?

Því miður eru þess of mörg dæmi um að bæjaryfirvöld í Kópavogi leggi höfuðáherslu á að sinna fyrirtækjum sem vilja hagnast á því að byggja íbúðarhúsnæði á eftirsóttum reitum, en gleyma fólkinu í bænum. Eitt dæmi um þetta er þegar Kópavogsbær seldi sögufrægar húseignir í miðbæ Kópavogs rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018, (gamla Félagsheimilið í Fannborg 2, og Fannborg 4 og 6).

Samtímis var gerður samningur við kaupendur, þá nýstofnað fyrirtæki sem heitir Árkór ehf. Sá samningur veitti Árkór ehf. því sem næst frjálsar hendur um að skipuleggja svæðið, umbreyta því og leggja undir sig bílastæði sem tilheyra íbúum og þjónustu á svæðinu. Þá tók bæjarfélagið á leigu til 5 ára af kaupendum eina af hinum seldu eignum fyrir fjárhæð sem nemur um 2/3 af söluverði eignarinnar.

Skömmu síðar samþykkti bæjarráð að breyta skráningu gamla Félagsheimilisins í „fokhelt“ í þeim tilgangi að lækka opinber gjöld, þó notkun þess væri óbreytt fyrir sem eftir. Samkvæmt framkomnum deiliskipulagstillögum á að rífa Fannborg 2, 4 og 6 og byggingamagn á svæðinu um það bil sexfaldast.

Stjórnsýsla bæjarfélagsins við gerð skipulags á Kársnesinu er önnur sorgarsaga. Þar var stofnað til samkeppni um skipulag og niðurstöðu hrósað í hásterti. En þegar á reyndi og byggingarfyrirtæki komu fram með sínar hugmyndir um skipulag varð vegur sigurtillögunnar lítill sem engin.

Fyrirtækið Vinarbyggð ehf., virðist hafa fengið frjálsar hendur við gerð skiplags. Framkomnar tillögur munu spilla gæðum eldri byggðar við vesturenda Þingholtsbrautar.

Til að kóróna klúðrið á Kársnesinu hefur nú komið í ljós að búið er að heimila mun fleiri íbúðir en aðalskipulagið tilgreinir.

Hér má lesa meira um stjórnsýslu Kópavogs við skipulag á Fannborgarreits og Traðarreit vestur. Hér má lesa um skipulagsklúður á Kárnes „Skipulagsmál á Kársnesi í Kópavogi – starfshættir stjórnvalda“ 

Er félagið hugsað eingöngu vegna baráttu gegn deiliskipulaginu í Miðbæ Kópavogs?

Nei, alls ekki. Kveikjan að því samtali og þeirri gerjun sem nú fer fram vegna skipulagsmála í Kópavogi og snýr að stofnun umrædds félags má rekja til þeirrar andstöðu og úlfúðar meðal bæjarbúa vegna fyrirætlana í miðbæ Kópavogs.

Hins vegar hefur sú staða komið upp að margir Kópavogsbúar í öðrum hverfum en í miðbæ Kópavogs segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Kópavogsbæ.

Þannig að áhugi er mikill úr öðrum bæjarhlutum að koma að stofnun íbúasamtakanna „Vinir Kópavogs“ og félagið er opið öllum Kópavogsbúum.

Til hvers að stofna félag?

Svo virðist sem bæjaryfirvöld takið lítið sem ekkert mark á athugasemdum og ábendingum bæjarbúa. Með stofnun félags myndast bakhjarl fyrir íbúana að sækja sér ráð og styrk í glímu sinni við bæjaryfirvöld.

Félagið getur orðið vettvangur bæjarbúa til að bera saman bækur sínar og reynslu af samskiptum við bæjaryfirvöld.

Félagið getur orðið vettvangur til að auka þekkingu á lögum og reglum sem gilda um skipulagsmál og stjórnsýslu, lög og reglur sem bæjaryfirvöld í Kópavogi virðist leitast við að líta fram hjá.

Hver er staðan með Traðarreit vestur?

Traðareitur vestur liggur norðan við Digranesveg á milli Vallartraðar og Neðstutraðar. Þar eru átta íbúðarhús sem byggð voru á árunum 1936 til 1978. Byggingafélag hefur keypt húsin og áformar að rífa þau. Arkitekt Árkórs ehf. kom að gerð varðveislumats húsanna á þessu svæði og fann, að sjálfsögðu, ekkert sem var verndar vert.

Benda má að samkvæmt leiðbeiningum eiga hagsmunaaðilar ekki að annast mat á verndargildi húsa. Byggingafélagið virðist hafa gengið til samstarfs við Árkór ehf. um gerð deiliskipulags á svæðinu sem nær til þessa reits og Fannborgarreitar.

Ekki hefur komið fram að Kópavogsbær hafi gert samkomulag við byggingafélagið um gerð deiliskipulags, eins og gera ber skv. skipulagslögum. Unnið er að skipulagi á reitunum tveimur samhliða þó samningur Kópavogsbæjar gildi einungis um hluta Fannborgarreitar.

Þess ber að geta að Kópavogsbær er eigandi a.m.k. tveggja fasteigna á Traðarreit vestur. Sú staðreynd hefur þó ekki komið í veg fyrir að svæðið sem heild er skipulagt eins og lóðarrétturinn væri einn og óskiptur byggingarfyrirtækisins.

Bæjaryfirvöld hafa samþykkt skipulag fyrir Traðarreit vestur en það hefur enn ekki verið auglýst. Málið er til skoðunar hjá Skipulagsstofnun, m.a. vegna athugasemda sem íbúar í Kópavogi hafa gert. Verði skipulagið samþykkt skapast forsendur til að kæra það til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Hver er staðan á Traðarreit austur?

Traðarreitur austur er staðsettur á milli Kópavogsskóla og MK. Skipulag á þeim reiti hefur verið formlega samþykkt og auglýst.

Það má geta þess að auglýsingin birtist á sumarleyfistíma, svona til að draga úr líkunum á því að bæjarbúar tækju eftir. Í gildandi aðalskipulagi segir að í eldri hverfum skuli ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar hvað varðar götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlist.

Þrátt fyrir þessi markmið á samkvæmt deiliskipulagi að byggja 180 íbúðir á Traðarreiti austur og er byggingarmagnið tuttugufalt miðað við þá byggð sem fyrir er. Markmið aðalskipulags virðast því hafa gleymst. Þetta eiga að vera blokkir allt að 5 hæðir sem yfirgnæfa aðra byggð á svæðinu, skerða úrsýni og valda sviptivindum.

Liðlega 70 íbúar í Kópavogi hafa kært skipulagið til Úrskurðarnefndar.

Kæruna má finna hér: Kæran, afrit hér birt á Facebook.

Hvað er vinnslutillaga og til hvers?

Bæjaryfirvöld í Kópavogi stæra sig af því að leggja fram vinnslutillögur, sem koma áður en endanlegar skipulagstillögur eru lagðar fram. Þetta kalla bæjaryfirvöld aukið samráð, umfram lagaskyldu. Reynslan af þessum vinnubrögðum er ekki góð.

Í vinnslutillögum eru lagðar fram tillögur sem eru svo yfirgengilegar að þær valda áfalli hjá almennum bæjarbúum. Þeir bregðast við með athugasemdum og svo er upprunaleg vinnslutillaga lítilega lagfærð, til að láta svo út líta að verið sé að koma á móts við sjónarmið bæjarbúa.

Lagfærð tillaga er þó enn að stofni til sú upprunalega og oftast langt frá þeim hugmyndum um byggð sem íbúar sækjast eftir. Með framangreindum vinnubrögðum segjast bæjaryfirvöld vera að efla aðkomu íbúa að gerð skipulags. Hið rétta er að aðkoman er í raun veikt og gerð marklaus.

Ef efla á aðkomu íbúa þurfa þeir að taka þátt í að undirbúar grunnforsendur fyrir skipulag; að taka þátt í að móta svokallað skipulagslýsingu. Sú lýsing á að byggja á væntingum og vonum íbúa um hvernig nýtt skipulag getur bætt mannlíf og byggð, en ekki eingöngu hvernig má þétta byggð og stuðla að því að lóðarrétthafar hafi sem mesta fjárhagslegan ávinning af verkefninu.

Er ekki skynsamlegt að þétta byggðina?

Jú, en þétting byggðar á svæðum þar sem fólk býr er viðkvæmt og vandasamt viðfangsefni.

Á byggingartíma verða íbúar fyrir miklu raski og hávaðamengun og ef ekki er rétt að skipulagi staðið verður bæjarhlutinn ekki jafn eftirsóknarverður til búsetu og áður.

Svo er líka afar mikilvægt að aðlaga nýja byggð að þeirri byggð sem fyrir er, bæði hvað varðar gerð húsa og hæð bygginga.

Og síðast en ekki síst þarf að gæta vel að því að íbúar njóti dagsbirtu í íbúðum sínum og sólarljóss og skjóls á útvistarsvæðum. Í Kópavogi virðist oft sem þétting byggðar sé eina markmiðið sem þarf að uppfylla, en öll hin markmiðin sem tryggja góð búsetuskilyrði um langa aldur gleymast.

Hvernig samræmast þessi vinnubrögð bæjaryfirvalda innleiðingu Kópavogsbæjar á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna?

Engan veginn. Í markmiðsáætlun Sameinuðu þjóðanna er lögð mikil áhersla á að íbúar komi talsvert að ákvörðunarferli þegar nánasta umhverfi þeirra er skipulagt (Dæmi: Markmið nr. 17 um samvinnu).

Því er ekki til að heilsa hér. Þá er einnig lögð mikið áhersla á umhverfismál og sjálfbærni (Dæmi: Markmið nr. 11 um sjálfbærar borgir). Þar er Kópavogsbær sömuleiðis mjög aftarlega á merinni og þarf ekki að líta lengra en á hvaða leið önnur sveitarfélög hér á landi eru að fara í þeim efnum.