Úbs….Hvað hef ég gert?
Þessi hugsun gæti komið upp í huga þeirra sem sátu í bæjarstjórn Kópavogs á síðasta kjörtímabili eftir nokkur ár þegar þau keyra fram hjá Traðarreit eystri. Þetta er nú byggingarreitur sem keyptur var upp af fjárfestum fyrir nokkrum árum og bæjarstjórnin leyfði þeim með samþykki allra í bæjarstjórn að rífa niður átta rótgróin hús með fullvöxnum húsagörðum í þeim tilgangi að reisa þar 180 búðir. Gera má ráð fyrir því að þau hafi verið að hlýða því ákalli að Kópavogur eigi að leysa íbúðavanda höfuðborgarsvæðisins einn og óstuddur.
En hvað þýðir þetta þegar framkvæmdir eru þegar hafnar og blákaldur raunveruleikinn blasir við? Verða einhverjar afleiðingar eða neikvæð ruðningsáhrif út af þessari ákvörðun? Hver var ástæðan fyrir því að 80 íbúar í nágrenninu voru að mótmæla með formlegum hætti en bæjarstjórnin lagði ekki hlustir við. Skoðum nú hvað blasir við okkur íbúum á þessu svæði. Reiturinn er staðsettur við Digranesveg á milli tveggja skóla, Kópavogsskóla sem er grunnskóli með um 400 nemendur og Menntaskólans í Kópavogi (MK) með 1000 nemendur og fer nemendum fjölgandi á ári hverju. Með tilkomu nýja íbúamassans bætast við um 480 íbúar sem er um 2250% íbúaaukning á reitnum.
Meðalstærð íbúða eru um 75-80 m2 og hæð bygginganna er áætluð allt að 5 hæðir. Heildarfermetrafjöldi er 28.100 m2 með nýtingastuðul upp á 3,70 sem er gríðarleg nýlunda hér í Kópavogi og þó víða væri leitað hérlendis sem og erlendis. Til að glöggva sig á umfanginu þá eru húsakynni Háskóla Íslands samanlagt 73.000 m2 og því er þetta tæplega 1/3 af húsakynnum háskólans í heild svona til að setja þetta í skiljanlegt samhengi þannig að skólarnir, beggja vegna byggingaklasans, verða líkt og litlir bílskúrar í sjónrænum samanburði. Þessari íbúaaukningu fylgir svo umfangsmikil bílaumferð því að hver íbúð fær 1,3 bílastæði í bílakjallara eða þá alls 234 bílastæði og svo nokkur stæði fyrir utan handa gestum.
Þessi fjöldi bílastæða gerði ráð fyrir breyttum ferðavenjum, vegna Borgarlínunnar, en miðað við núverandi skipulagsstefnu þá mun sú samgöngulína ekki liggja niður Digranesveg heldur fer hún beint yfir í Smárann og því er ljóst að byggingaraðilar þurfa því að bæta við enn fleiri bílastæðum til að svara þeirri þörf. En hvað þýðir öll þessi aukning bílaumferðar? Samkvæmt minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits þá eykst umferðin um Digranesveg upp í > 10.000 og >13.000 ef Hávegur bætist við sem er jafnstór Traðarreit (norðan megin við MK og fjárfestarnir eiga), ásamt því að ferðavenjur breytast ekki með Borgarlínu.
Út frá þessu gætum við því lagt fyrir nemendur skólanna þetta reikningsdæmi til að finna út hve margir bílar munu aka um Digranesveg á hverri mínútu miðað við að virk umferð sé í 8 klukkustunda ferðaglugga íbúa.
Útreikningur: 10.000/8 = 1200 bílar á klukkustund, eða 1200/60 = 20 bílar á mínútu.
Til samanburðar þá er Hverfisgata í Reykjavík með 6023 bíla á sólarhring. Útreikningur: 6023/8 = 743 bílar á klukkustund, eða 875/60 = 12 bílar á mínútu.
Þessir útreikningar miðast við jafna umferð allan ferðagluggann en það er í raun ekki rétt því álagstímarnir munu vera á morgnana og síðdegis þegar fólk fer til og frá vinnu og þar verða þá toppar.
Miðað við núverandi umferðaálag þá þarf MK að hliðra til opnunartíma sínum um 20 mínútur til að greiða fyrir þeirri umferð sem nú er. Ljóst er því miðað við þetta að MK ætti að opna mun síðar og hætta mun fyrr. Nemendur skólanna munu nú augljóslega sjá hvað hér hefur gerst. Rólega 30 km gatan sem skólinn þeirra stendur við hefur breyst í hávaðasamt miðbæjarstræti því þau munu átta sig á að með aukinni bílaumferð þá eykst hávaði sem og svifryksmengun.
Í hljóðvistaútreikningum sem unnið var af verkfræðistofunni VSÓ þann 16.03.2020 og lá til grundvallar þessari ákvörðun bæjarstjórnar stendur “Samkvæmt reglugerð um hávaða (724/2008) eru viðmiðunarmörk hávaða á íbúðasvæðum 55dB(A). Gera má ráð fyrir að á nýjum Traðarreit (þ.e. Traðarreit-eystri) þá verður hljóðvist yfir mörkum reglugerðar við framhliðar húsanna þ.e. þær hliðar sem snúa eingöngu út að Digranesvegi, Hávegi og Meltröð.” Samkvæmt þessu þá er Digranesvegur orðinn “RAUД gata með yfir 55dB af hávaða sem stafar af bílaumferð og ekkert segir í greiningunni hve mikið fyrir ofan 55dB hávaðinn verður.
Hljóðvistaútreikingar sem unnið var af verkfræðistofunni VSÓ þann 16.03.2020. Rautt= >55dB
Nýju byggingarnar á Traðarreit munu allar taka mið af þessum hávaða og verða þær sérstaklega hljóðeinangraðar. Annað mun þó ekki vera í boði fyrir núverandi íbúa sem mun nú þurfa að líða þennan hávaða yfir leyfilegum mörkum. Þá liggur sú spurning fyrir hvort Kópavogsbær þurfi þá að þríglerja öll hús við Digranesveginn til að koma á móts við íbúa vegna umferðahávaðans.
Slík aðgerð gæti kostað Kópavogsbæ um og yfir 500-600 milljónir þar sem einnig ætti að þurfa að þríglerja skólana líka svo nemendurnir geti lært í friði. Augljóst er einnig á gatnamótum Grænutungu og Digranesvegar þurfa að koma umferðarljós og við þau gatnamót mun þessi hávaði aukast til muna þegar bifreiðar taka af stað úr kyrrstöðu, í brekku, eftir rautt ljós. Enn fremur er sýnt að foreldar grunnskólanemanna í Kópavogsskóla munu ekki treysta sér til að leyfa börnum sínum að ganga í skólann sjálf þegar umferðarþunginn er orðinn slíkur og því munu þau freistast til að skutla börnunum í skólann sem aftur mun auka umferðarþungann og hávaðann.
Íbúar í hverfunum fyrir neðan Digranesveg, í tungunum og hvömmunum, munu nú þurfa að bíða langtímum saman á ljósum við Digranesveg og Grænutungu til að komast upp á Digranesveg eins og þeir eru vanir. Ef ekki þá þurfa þeir íbúar að keyra yfir á Dalveg við Smárann og fikra sig þaðan austur eða vestur. Sú umferð bætist við þá umferð sem kemur frá nýju blokkunum sem nú verið er að reisa við Smáralind en þar eiga rísa nokkuð hundruð íbúðir til viðbótar og þeim fylgja 1,3 bílar fyrir hverja íbúð.
Ef íbúar við Digranes reyna að komast yfir á Álfhólsveg þá hafa fjárfestar einnig þegar keypt upp lóðir þar þannig að við má búast að þar muni umferðin aukast einnig umtalsvert til viðbótar. Að auki þá mun öll umferðin frá Hamraborginni bætast við þetta allt en þar munu rísa um 500 búðir að auki og þar verða um 2000 bílastæði og það bætist svo allt saman við þessa bílaumferð og sú umferðaaukning er ekki inni í þessum tölum því sú greining er ekki til. Greiningarnar eru aðeins gerðar fyrir hvern reit fyrir sig og engin heildar umferðagreining hefur verið reiknuð út og því er ekki hægt að vitna í slíkar skýrslur.
Bútasaumsaðferðin er því mjög hentug þegar læða skal skipulagsslysum í gegn án vitundar íbúa og fráfarandi bæjarstjórn kann það svo sannarlega upp á 10. Eins og allir sjá þá er með þessari þéttingu gatnakerfið sprungið til allrar framtíðar því ómögulegt er að bæta við götum til að létta á umferðinni nema þá að rífa niður önnur hús í hverfinu til að leysa þau mál. Við alla þessa upptalningu ættir þú lesandi góður að vera orðinn hálf ringlaður en um leið ættir þú að velta fyrir þér af hvernig þessu var leyft að gerast.
Þeir sem ákváðu að þetta héldu að þetta væri skemmtileg uppbygging og væri góð lausn á íbúðavanda höfuðborgarsvæðisins en sáu þetta greinilega ekki fyrir og algerlega ljóst að þau hafa ekki verið læs á verkfræðiskýrslur sem lágu fyrir um þessi mál eða þá ekki lesið þær.
En nú er þetta of seint og skipulagsslysið blasir við og innviðirnir okkar verða eyðilagðir og ljóst að krafan um að leggja Digranesveg í stokk mun örugglega spretta upp um leið og raunveruleikinn bankar upp á eða þá að reisa mislæg gatnamót eða bara eitthvað sem reddar þessu. Kópavogur er nú þegar þéttbýlasta sveitafélagið á landinu en samt hafa bæjarfulltrúar okkar til þessa samþykkt alla þessa þéttingu í sameiginlegum hrunadansi 11-0.
Nú fyrir kosningar þá er enginn þessara flokka að ræða þessi umferðamál því þau geta ekki tekið neina tæknilega umræðu um þetta mikilvæga atriði af því að þekking þeirra á þessu virðist ekki rista djúpt. Gömlu flokkarnir eru því á flótta undan þessari umræðu en halda áfram að berja bumbur og hvetja til enn meiri þéttingar í Kópavogi og þannig verður það til þess að innviðir okkar hrynja með meiri hvelli en áður.
Þegar þetta verður svo allt að veruleika þá sitjum við íbúarnir uppi með þessar ákvarðanir um alla framtíð, án þess að hafa vera upplýst um þessar afleiðingar. Þegar sú framtíð kemur þá fyrst munu þessir bæjarfulltrúar átta sig og hugsa á meðan þau bíða á rauðu ljósi… “Úbbs… hvað hef ég gert?”
kolbeinn reginsson
LÍFRÆÐINGU OG HUGBÚNAÐARSMIÐUR