Óbreytt fúsk í Kópavogi
Árið 2007 háðu íbúar Kársness snarpa og harða baráttu við bæjaryfirvöld vegna fyrirhugaðs skipulags á nesinu. Málið snerist um að til stóð að sett yrði upp stórskipahöfn yst á Kársnesi og áhersla lögð á hafnsækna starfsemi. Meirihluta íbúa stóð stuggur af þessum áætlunum, enda hugmyndin algerlega galin. Fyrir utan þá staðreynd að það þarf að gæta flóðs og fjöru til að geta siglt inn Skerjafjörð og staðarval því vafasamt, þá lá ljóst fyrir frá upphafi að allur flutningur á uppskipuðum varningi átti að fara gegnum gróin íbúðahverfi með tilheyrandi mengun, slysahættu og auðvitað aukningu á umferð, sem varla var á bætandi. Úr varð að það voru stofnuð öflug íbúasamtök gagngert til að stöðva þessa vitleysu. Þau lögðust í umfangsmikla greiningu á öllu sem sneri að skipulagsmálum á svæðinu. Stóri sannleikurinn í þeim málum var þá og er að Kársnes er, eins og nafnið gefur til kynna, nes eða tota og það eru einungis þrjár leiðir út úr hverfinu, þar af tvær sem liggja í nágrenni grunnskóla svæðisins. Það þýðir með öðrum orðum að allri umferð hefði leynt og ljóst verið beint á Kársnesbraut. Flutningsgeta gatnakerfisins var þá þegar nánast fullnýtt og öll viðbót á umferð til þess fallin að skerða lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir voru. Svifryk samkvæmt mælingum komið yfir mörk og hávaði vegna umferðar langt yfir leyfileg mörk. Barátta samtakanna gekk fyrst og fremst út á að fá yfirvöld til að falla frá hugmyndum um stórskipahöfn, en eins var lögð á það áhersla að sú byggð sem skipulögð yrði á uppfyllingum og þróunarsvæðum yrði í takt við þá byggð sem fyrir var; lágreist hús, rúmt um íbúa og þeim bæjarbrag sem fyrir var viðhaldið. Baráttu ársins 2007 lauk á vissan hátt með sigri íbúa, en þó ekki. Samtökin náðu því fram að það var fallið frá stórskipahöfn, en í staðinn fyrir hana var farið af stað með mun meiri íbúðabyggð en nokkurn hefði getað órað fyrir. Nú er það ekki svo að þessi hópur hafi verið á móti íbúðabyggð og íbúafjölgun. Öll þannig áform verða hins vegar að haldast í hendur við getu gatnakerfis til að anna umferð, innviðir séu í takt við fjölda íbúa og samsetningu þeirra og síðast en ekki síst verður að skilja eftir græn svæði svo íbúar geti notið útiveru. Það yrði því að horfa á svæðið heildrænt og gæta þess að lífsgæði þeirra sem fyrir voru yrðu ekki skert að óþörfu. Það verður því miður að segjast eins og er að uppbyggingin á Kársnesi er langt frá því að vera ásættanleg. Hver þróunarreiturinn og uppfyllingin á fætur öðru er að byggjast upp, oftar en ekki með glæsilegum húsum þar sem ekkert er til sparað, en það er því miður alltaf byggt út að endamörkum byggingarreits, allt of þétt og of hátt og það er hvergi gert ráð fyrir neins konar mannlífi eða grænum svæðum. Þreföldun á íbúum og umferð Það sem var áður 4.000 manna rótgróið hverfi stefnir því í að þrefaldast í íbúafjölda, en ekkert gert varðandi innviði eða umferðarmannvirki. Hæstu hús hverfisins standa niðri við sjó, sem skerðir þar af leiðandi útsýni allra sem fyrir voru, og umferðarteppa um allt hverfið kvölds og morgna, þegar bróðurpartur íbúa er á ferðinni á leið til skóla eða vinnu. Þessu til viðbótar eru nú uppi áætlanir um að borgarlína liggi frá Hamraborg, vestur Borgarholtsbraut, niður Bakkabraut og yfir Fossvog. Burtséð frá því hvaða skoðanir menn kunna að hafa á borgarlínu eru þessar tillögur til þess fallnar að auka enn á umferðarteppur, bæði til lengri og skemmri tíma, og í raun vandséð hvernig koma á borgarlínu fyrir svo vel sé. Eðlilegast er að borgarlína taki mið af þeirri byggð sem fyrir er og aki í venjulegri umferð vestur Kársnesið. Fyrir þann sem þetta skrifar og var einn stofnenda og forsvarsmanna íbúasamtaka Kársness árið 2007 er því „Groundhog Day“ enn og aftur. En þegar að manni er sótt, þá er gripið til varna. Til höfuðs þessari ömurlegu þróun hefur nú verið stofnuð hreyfingin Vinir Kópavogs, en hún beitir sér gegn þeim óskapnaði sem skipulagsyfirvöld í Kópavogi í samkrulli við verktaka eru að kalla yfir íbúa víðsvegar um bæinn. Þetta er hreyfing sem beitir sér fyrir betra mannlífi um allan Kópavog, þar sem hagsmunir íbúa eru settir fremst. Vinir Kópavogs bjóða fram öflugan lista í sveitastjórnarkosningunum í næsta mánuði og er greinarhöfundur þar í fjórða sæti.
Þórarinn ævarsson
FRAMKVÆMDASTJÓRI OG BAKARAMEISTARI