Hvað hafið þið fram að færa sem flokkarnir í meirihluta og minnihluta hafa ekki?
Við erum grasrótarsamtök íbúa sem þykir vænt um Kópavog og við viljum hafa áhrif til góðs. Við erum ekki tengd stjórnmálaflokkum og við erum ekki atvinnupólitíkusar. Við erum breiður hópur Kópavogsbúa sem höfum fylgst með hvernig tækifæri til að gera bæinn betri hafa glutrast niður m.a. með þéttingu byggðar á forsendum fjárfesta. Við viljum að skipulag og uppbygging bæjarins stuðli að samfélagi þar sem mannlíf blómstrar.
Sem íbúar höfum við mörg reynslu af erfiðum samskiptum við bæjaryfirvöld þar sem fólki er ekki sýnd virðing. Ekki hefur verið hlustað á eða tekið tillit til þarfa og óska íbúa þegar fjárfestum og verktökum hefur verið afhent skipulagsvaldið. Við leggjum áherslu á íbúalýðræði og að bæjarstjórn eigi ætíð að vinna að almannahagsmunum í umboði bæjarbúa. Okkur finnst minnihlutinn ekki hafa andæft yfirgangi meirihlutans síðustu ár.
Í gegnum samskipti við bæjaryfirvöld hafa mörg okkar komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til að hafa áhrif til góðs sé að bjóða fram krafta okkar í bæjarstjórnarkosningum.
Við erum ekki með loforðalista. Við viljum standa við það sem við lofum. Ef við komum tveimur mönnum að, mun okkar fyrsta mál á dagskrá vera NÝTT AÐALSKIPULAG unnið í samvinnu við íbúa. Sú vinna gefur færi á góðu samráði við íbúa um hvernig áfram megi standa vörð um gott samfélag í Kópavogi og hvernig taka megi við nýjum íbúum í sátt við þá sem fyrir eru.
Af hverju ættu Vinir Kópavogs að vera öðrum framboðum líklegri til að fylgja fyrirheitum eftir?
Listi Vina Kópavogs er fléttulisti karla og kvenna, á mismunandi aldri, með þekkingu og reynslu á öllum sviðum sveitarstjórnarmála s.s. kennslu, leikskólakennslu, íþrótta- og sundþjálfunar, þjónustu við aldraða og fatlaða, barnaverndarmálum, byggingum og verklegum framkvæmdum, menningar- og ferðamálum, sáttamiðlun, o.s.frv. Reynsla oddvita listans af opinberri stjórnsýslu og stjórnun og rekstri er ekki bara af sveitarstjórnarstigi sem borgarritari og bæjarstjóri í Fjarðabyggð, heldur líka sem ráðuneytisstjóri og í stjórn bæði Evrópu- og Alþjóðastofnana. Við teljum okkur kunna til verka í flestum þeim viðfangsefnum, sem sveitarstjórnir fást við. Í hópnum eru eldhugar sem sett hafa á stofn ný fyrirtæki og þróað skólastefnu sem nýtur viðurkenningar langt út fyrir landsteinana. Fólk sem sinnir fyrirtækjarekstri á ýmsum sviðum og fer með fjármál. Fólk af erlendum uppruna, sem hefur reynslu af því að setjast að á Íslandi. Margir hafa verið og eru virkir í frjálsum félagasamtökum eins og íþróttafélögum, skátunum, Rauða krossinum og víðar. Þetta er fólk sem býður fram krafta sína af væntumþykju og löngun til að vinna bænum sínum vel. Komist Vinir Kópavogs til áhrifa búa þeir yfir dýrmætri þekkingu og reynslu til að takast á við krefjandi viðfangsefni sem hvarvetna blasa við og innleiða fagleg vinnubrögð hjá bænum. íbúalýðræði er lykillinn að árangri og samstöðu í huga Vina Kópavogs. í því felst að kallað er eftir sjónarmiðum íbúa, hlustað á raddir þeirra og þeim svarað með virðingu.
Er þetta ekki bara óánægjuframboð vegna þess að einstaklingar í Vinum Kópavogs eru ósáttir við áætlaðar framkvæmdir í Hamraborg og á Kársnesi?
Samskiptin við bæjaryfirvöld voru hvatinn fyrir marga sem búa í Hamraborg og á Kársnesi til að verða Vinir Kópavogs. Það að hafa engin áhrif sem íbúi og kjósandi þrátt fyrir mikla vinnu og kostnað við að koma ábendingum á framfæri hefur valdið óánægju og djúpstæðum vonbrigðum margra íbúa. Það er erfitt að upplifa valdhroka bæjaryfirvalda og skeytingarleysi þeirra um að fara að lögum og reglum við þéttingu byggðar.
Því miður er það sem hefur valdið óánægju íbúa á Kársnesi og í Hamraborg að gerast (eða mun gerast ef ekkert er að gert ) í flestum hverfum bæjarins. Hentugt byggingarland Kópavogsbæjar er að verða fullskipulagt og því er þétting byggðar í grónum hverfum aðferð bæjaryfirvalda til að fjölga bæjarbúum, sem virðist vera meginmarkmiðið í skipulagsmálum. Erindi Vina Kópavogs er að vel verði vandað til þéttingar byggðar sem búast már við í öllum hverfum Kópavogs á næstu árum. Það felur í sér að ný byggð taki mið af eldri byggð, að samgöngur verði leystar samhliða og að fólk eigi aðgang að þjónustu í hæfilegri fjarlægð.
Á þróunarreitum hafa fjárfestar /verktakar fengið að ákveða uppbyggingu sem einkennist af æ hærri og þéttari byggð einsleitra, rándýrra íbúða (sjá t.d. Traðarreit Eystri og nýja byggð sunnan Smáralindar). Engar lausnir eru á vaxandi umferðarþunga og undir hælinn lagt hvort þjónustuþarfir nýrrar byggðar eru leystar. Þétting byggðar inn í íbúðabyggð sem fyrir er þarfnast nærfærins samráðs og samtals við þá sem fyrir eru og svara við spurningum um hvernig þarfir nýju íbúanna verða leystar í sátt við þá sem fyrir eru.
Það er líka hægt að skoða framboð Vina Kópavogs sem ánægju framboð. Við viljum nefnilega skipuleggja bæinn með því að byrja á því með íbúum að skoða það sem við erum ánægð með í bænum okkar, hvað við viljum halda í og hvað við viljum vernda og bæta. Við viljum leggja okkar að mörkum til að breyta vinnubrögðum og vera í liði með íbúum til að gera bæinn okkar betri.
Af hverju þarf að breyta aðalskipulaginu?
Aðalskipulaginu var breytt í árslok 2021. Þá var bætt við reitum á „þróunarsvæðum“ þar sem íbúðafjölgun byggist á tillögum fjárfesta um hvernig þeir vilja þétta byggð. Áherslan er á magn íbúða, umfram mannvist og gæði byggðar. Hver reitur er afgreiddur án samræmis við næstu reiti og því engin heildarsýn varðandi m.a umferðaraukningu. Þetta er óskiljanlegt því um árabil hefur fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu verið mest í Kópavogi, sem er langfjölmennasta bæjarfélagið á eftir höfuðborginni (39.000). Hvort heldur er í samanburði við Reykjavík, við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eða á landsvísu þá fjölgar íbúum mest í Kópavogi. Land fyrir ný hverfi er nánast á þrotum og miklu minna en í nágrannasveitarfélögum. Á aðalskipulags tímabilinu er stefnt að fjölgun íbúa upp í 50.000 og talað um að það sé góð rekstrareining án nokkurs rökstuðnings. Vinir Kópavogs leggja megináherslu á skipulag sem tryggir gæði byggðar til að nýta sólarljósið og birtuna, koma í veg fyrir vindsveipi og tryggja viðunandi hljóðvist. Við viljum að fyrst sé skipulagt hvar þjónusta á að vera, hvernig hægt er að sjá fyrir samgöngum ekki bara einkabíla, heldur almenningssamgöngum og hjólandi og gangandi. Við viljum með nýjum vinnubrögðum skipuleggja vistvænt og mannvænt umhverfi og sinna nauðsynlegu viðhaldi í eldri hverfum bæjarins. Við viljum staldra við og fá íbúa með í að ákveða hvernig þörfum þeirra og bæjarfélagsins verður mætt.
Nú er tiltölulega nýbúið að gera aðalskipulag sem á að gilda til 2040 er það ekkert mál að breyta því?
Samkvæmt skipulagslögum á sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum að meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Vinir Kópavogs telja svo sannarlega ástæðu til að endurskoða illskiljanlegt aðalskipulag Kópavogs sem einkennist af orðaflaumi og óljósri framsetningu. Áherslur okkar eru á vellíðan og lífsskilyrði íbúa, yngri sem eldri, en ekki á það eitt að fjölga þeim. Oddviti listans fékk sem bæjarstjóri reynslu af gerð aðalskipulags, þegar nokkur smærri sveitarfélög á Austfjörðum voru sameinuð undir nafni Fjarðabyggðar. Í öllum byggðakjörnunum voru íbúafundir og samráð við íbúa sem lögðu fram áherslur sínar og forgang sem nýtt var við skipulagsgerðina.
Nú er Kópavogsbær með ferli varðandi aðkomu íbúa (sjá t.d. greinargerð vegna deiliskipulags Vatnsenda) hvernig sjáið þið fyrir ykkur að þetta verði gert öðruvísi ef þið fáið að ráða?
Við munum leita allra leiða til að fá íbúa til samstarfs um nýtt upphaf með gerð skipulagslýsingar og síðan kalla þá til ráðgjafar eftir því sem ferlinu vindur fram. Við trúum því að víðtækt, gagnvirkt samráð leiði til betri niðurstöðu en sé ekki til þess eins að tikka í box af því að samráðs er krafist í skipulagslögum. Markmið nýs aðalskipulags yrði ekki að finna leiðir til að fjölga íbúðareitum heldur að nýta staðarkosti í Kópavogi til að auka lífsgæði íbúanna og stuðla að fjölbreyttu mannlífi.
Fyrst drögum við stóru línurnar – hverju erum við stolt af? Hvaða svæði viljum við vernda? Hvernig viljum við hafa miðbæjarkjarna, hverfiskjarna og útivistarsvæði (dali, vatn, strönd og holt)? Hvernig sjáum við samgöngur inn og úr bænum og milli bæjarhluta? Síðan verður yfirferð með íbúum í hverju hverfi fyrir sig, og leitað eftir hugmyndum um hvernig hverfin geti orðið sem sjálfbærust varðandi þjónustu og aðstöðu til útivistar og tómstunda.
Nýting á reitum/lóðum sem losað er um þarf að vera hluti af heildarmyndinni og viðbót sem eykur lífsgæði og fjölbreytni. Reitir sem losna þurfa ekki að fyllast með gámablokkum, þeir geta líka breyst í torg með kaffihúsum, sparkvelli, hundagerði, lóð fyrir leikskóla, íþróttamannvirki eða húsnæði fyrir barnafólk og námsmenn.
Við viljum að orð og athafnir haldist í hendur, að skipulagið sé skýrt, skiljanlegt og fyrirsjáanlegt og að fólk viti hvaða ferli fara í gang ef breyta á skipulagi.
Það þarf að vera hægt að kalla yfirvöld til ábyrgðar ef þau samþykkja tillögur fjárfesta eða verktaka, að deiliskipulagi í andstöðu við íbúa. Einnig ef tillögur fjárfesta hafa í för með sér kostnað sem gæti fallið á alla bæjarbúa og ekki er gerð grein fyrir. Sem dæmi má nefna þrefalt gler í eldri byggð þar sem umferðarhávaði fer yfir leyfileg mörk eftir þéttingu (Traðarreitur) eða ef nýja uppfyllingu þarf til að hægt verði að aka, ganga og hjóla meðfram þéttingarbyggð við ströndina (reitur 13 Kársnesi) eða ef leggja þarf nýtt holræsakerfi, fyrir regnvatn og skólp, með sprengingum djúpt í bergið niður í Skeljabrekku og Vogatungu (Hamraborg/Fannborg). Kostnaður við þessar framkvæmdir til að tryggja uppbyggingu á reitunum hleypur örugglega á hundruðum milljóna eða milljörðum. Hann ætti að réttu að falla á þá sem njóta ávinnings af byggingarrétti en ekki á útsvarsgreiðendur almennt.
Hvað með húsnæðisvandann?
Húsnæðisvandi er ekki eitthvað sem einstök sveitarfélög leysa án samhengis við önnur sveitarfélög. Kópavogur hefur lagt mun meira til fjölgunar íbúða síðustu áratugi en nágrannasveitarfélögin. Hann býr ekki lengur að því hentuga byggingarlandi sem hann gerði. Íbúðir sem byggðar eru á þéttingarreitum eru mun dýrari en íbúðir á nýju landi, þar sem hvorki þarf uppkaup né niðurrif. Þess vegna eru möguleikar Kópavogs til leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir húsnæði á hagkvæmu verði minni en nágrannasveitarfélaganna. Þær íbúðir sem selst hafa á þéttingarreitum og landfyllingum eru bæði dýrar og einsleitar eins og bent hefur verið á m.a. af framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Í því samhengi má hafa í huga að aldrei hafa jafn margir á Íslandi fjárfest í íbúðum sem ekki eru heimili þeirra – þannig íbúðir eru 52.000 talsins. Húsaleigan er örugglega ekki lág í nýju byggðunum á uppfyllingum og þéttingarreitum í Kópavogi og venjulegt, ungt launafólk í leit að fyrstu íbúð hefur ekki efni á þeim.
Er framboðið með eða móti Borgarlínu?
Framboðið er fylgjandi góðum almenningssamgöngum og vill Borgarlínu vegna áherslu á loftslags- og umhverfismál, lýðheilsu og skilvirkni. Borgarlína án samráðs við íbúa, sérstaklega við götur sem Borgarlínan á að fara um er ekki í anda Vina Kópavogs Samtal og skilningur íbúa á hvernig tekið verður á áskorunum vegna nýrrar Borgarlínu eru er mikilvæg forsenda að vel takist til. Valdboð og hroki, þegar íbúum finnst að sér og hagsmunum sínum vegið, mun bara leiða af sér dýran málarekstur fyrir dómstólum. Þurfi samninga við íbúa um breytingar á lóðum þeirra verður að ætla þeim sem standa að Borgarlínunni greiðslu þess kostnaðar.
Hver er stefna framboðsins í skóla og leikskólamálum?
Við gerum okkur grein fyrir að ekki er hægt að leysa núverandi vanda barna á leikskólaaldri með einni tiltekinni aðgerð. Verðum við í stöðu til þess, munum við leggja okkur fram um að greina hvaða ráð bærinn hefur á valdi sínu til að koma til móts við foreldra, sem eru í vanda. Við viljum hlusta á og taka tillit til mismunandi þarfa foreldra og barna þeirra og við viljum að foreldrar geti valið milli fjölbreyttra kosta. Við viljum að systkini geti verið á sama leikskóla en ekki þurfi að keyra þau bæjarenda á milli.
Nú talar meirihlutinn um góðan rekstur sem tengist ekki síst tekjum af sölu lóða og stöðugri fjölgun húsa. Hvernig ætlar VK að tryggja rekstrargrundvöll sveitarfélagsins?
Skipulagsmál snerta öll svið mannlífsins og eru líka efnahags- og fjármál. Við viljum leggja áherslu á að Kópavogur er ekki svefnbær heldur stærsti bær landsins utan höfuðborgarinnar með fullt af tækifærum. Kópavogur býr að landkostum og fegurð í dölum, á holtum, við vötn og sjávarsíðu. Vinir Kópavogs vilja nýta staðarkosti á hverjum stað til útivistar og mannlífs þannig að ferðamenn eins og íbúar geti notið þess að vera utanhúss og innan í Kópavogi. Ferðaþjónustan á að byggjast á staðarkostum en ekki líta á það sem hlutverk Kópavogs að tryggja gegnumstreymi bæði um Fossvogsbrú til Reykjavíkur og með Borgarlínu um miðbæ. Í nýju aðalskipulagi þarf að nýta tækifæri sem gefast til að stuðla að því að hvert hverfi standi vörð um þá staði sem best henta fyrir mannlíf og skemmtan. Fullorðnir og börn eiga að geta varið tómstundum sínum í Kópavogi fremur en aði sækja flesta skemmtan í nágrannasveitarfélög.
Með nýtingu lands undir einsleita íbúðabyggð og vannýttum tækifærum til að njóta náttúru og mannlífs er grafið undan rekstrargrundvelli bæjarins þegar til lengri tíma er litið. Á síðustu árum hefur íbúasamsetning Kópavogs breyst mikið. Eldri íbúar eru hlutfallslega mun fleiri en var þegar Kópavogur var bær barnanna. Æskilegt er að hafa jafnvægi í aldurssamsetningu og mikil umsvif og atvinnustarfsemi fylgir barnafjölskyldum. Útsvarstekjur, sem eru aðaltekjustofn bæjarins eru hluti af tekjuskatti launafólks. Skattur á fjármagnstekjur og arð rennur hins vegar óskiptur til ríkisins eins og virðisaukaskatturinn. Þeir eldri eru oft efnameiri og greiða vitaskuld útsvar af lífeyristekjum en af fjármagnstekjum greiða þeir skatt til ríkisins.
Hvað ætlið þið að gera fyrir ungt fólk og fjölskyldufólk?
Vinir Kópavogs vilja að í Kópavogi bjóðist íbúðir fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign. Til þess þarf að bylta hugsuninni varðandi íbúðauppbyggingu. Markmið okkar er að bærinn annist sjálfur deiliskipulag innan samþykkts aðalskipulags og bjóði út lóðir þannig að samkeppni verði milli verktaka. Þannig verður hægt að skilgreina fjölbreytta byggð, gæta jafnræðis milli byggingaraðila og samkeppnin leiðir til lægra íbúðaverðs. Í nýju aðalskipulagi verður skilgreint hvaða þjónusta býðst í hverju hverfi og farið yfir samgönguleiðir fyrir hjólandi, gangandi, almenningssamgöngur og bílaumferð. Með fjölbreyttari byggð á að gera námsmönnum og yngra fólki kleift að velja sér samastað í Kópavogi.
Hvernig ætla Vinir Kópavogs að haga samstarfinu við íþróttafélögin í Kópavogi?
Við munum byrja á því að leita samráðs við öll íþróttafélögin í bænum um endurskoðun nýlegrar íþróttastefnu Kópavogs, sem samin var án nokkurrar aðkomu þeirra. Vinir Kópavogs trúa því að þeir sem hafa reynslu af íþróttastarfinu séu þeir sem leita á til varðandi stefnumótun á öllum sviðum íþróttastarfs og um framlög bæjarins og samstarf við íþróttafélögin. Það skiptir máli bæði fyrir Kópavog og íþróttafélögin að gerðar séu áætlanir til nokkurra ára þannig að fyrirsjáanlegt sé hvaða aðstæður bærinn getur búið félögunum. Þetta á bæði við starfið sjálft og aðstöðu félaganna. Þjónustusamningar við félögin þurfa að miðast við að ábyrgð á verkþáttum sé í senn skýr og skynsamleg. Vinir Kópavogs telja að með því að fara yfir samskiptin og leikreglurnar megi nýta framlög til íþróttastarfs mun betur en nú er.
Hvað ætlið þið að gera fyrir eldra fólk?
Eldra fólk hefur mismunandi þarfir eins og aðrir íbúar bæjarins. Íbúalýðræði þýðir að eldra fólk ekki síður en aðrir bæjarbúar þarf að geta haft áhrif á þjónustuna og aðstöðuna sem bæjarfélagið veitir. Mest hefur umræðan verið um hjúkrunarheimili og skort á þeim en ríkið ber ábyrgð á þeirri þjónustu. Það er mikilvægt að heimahjúkrun, sem ríkið ber ábyrgð á, og heimaþjónusta bæjarins vinni vel saman og markist af þörfum þeirra sem þjónustu njóta. En það er ekki síður mikilvægt að muna að fjöldinn allur af eldra fólki er í fullu fjöri og vill njóta tómstunda með öðrum. Í félagsstarfi fyrir aldraða gerir Kópavogsbær ýmislegt mjög vel og t.d. eru bæði sundleikfimi aldraðra og skipulagðir leikfimitíma til fyrirmyndar og allt slíkt viljum við styðja við. Í grunninn er það auðvitað þannig að eldra fólk eins og aðrir njóta þess best að við stöndum vörð um góða möguleika til gönguferða og útivistar á óspjölluðum náttúrusvæðum. Við viljum horfa til framtíðar og skoða hvernig best má þjóna íbúðabyggð þar sem margir íbúar núna eru á sjötugsaldri og verða komnir á níræðisaldur eftir 20 ár.
Hvað með hunda?
Hundahald er hluti af mannlífinu í bænum og það þarf að vera pláss fyrir hundagerði – helst í hverfunum. Taka þarf tillit til þessara þarfa í skipulagsvinnunni.
Eruð þið fylgjandi atvinnurekstri í íbúðahverfum?
Við viljum fjölbreytta byggð og við viljum ekki að Kópavogur líti á sig sem svefnbæ. Við viljum sambúð í sátt. Því eiga hávaðasöm fyrirtæki sem menga ekki heima í þéttri íbúðabyggð. Langflest fyrirtæki eru þó hvorki mengandi né hávaðasöm og við teljum mikilvægt að fyrirtæki, veitingastaði, þjónustu og verslun sé að finna í öllum hverfum. Aðeins þannig getum við talað um 15 mínútna hverfi, þar sem fólk getur búið, starfað og sótt sér þjónustu.
Áhersla okkar er á að Kópavogur standi undir staðarstolti íbúa sinna. Hann er langstærsti bær landsins, ef höfuðborgin er undanskilin. Samt hefur hann hvorki haft metnað til að eiga almennilegan miðbæ né heldur að nýta þá miklu kosti sem felast í aðgangi almennings að fjöru og hafnarsvæði. Á Akureyri var að ljúka hugmyndasamkeppni um bryggjusvæði við miðbæ Akureyrar. Þar segir dómnefndin:
„… að á síðustu árum hvi skipulagsyfirvöld bæja og borga víða um heim gert sér sífellt betur grein fyrir því gríðarlega aðdráttarafli sem vel skipulögð hafnarsvæði með blandaðri starfsemi hafi fyrir íbúa og ferðafólk.“
Undir þetta taka Vinir Kópavogs og finnst það lýsandi fyrir úr sér gengna gamaldags skipulagshugsun að Kópavogur kýs að skipuleggja slík svæði á grundvelli tillögu fjárfesta um íbúðabyggð fram á sjávarbakka. Þar með er uppbygging í þágu mannlífs s.s. sjóböð, veitingahús, kajakleiga, leikvellir inni og úti útilokað – nema slíkt verði á landfyllingum umfram það sem þegar er orðið. Með sama hætti einkennist miðbæjarskipulagið af áherslu fjárfesta á allt of háar og þéttar íbúðablokkir. Í miðbæjum ætti að leggja áherslu á byggingar sem mynda skjól, hleypa sólinni að og nýta birtuna. Þar á að vera gott að ganga um, njóta þess að setjast og bein tenging á að vera við menningarbyggingar og kirkju handan gjárinnar.
Bæjaryfirvöld hafa valið að nýta ekki þá staðarkosti sem einstök svæði í Kópavogi búa yfir, heldur ætla bæjarbúum að sækja mannlíf og tómstundir yfir í nágrannabæi. Hjólastígar sem samgönguæð eru óleystur vandi en viðmiðið virðist að sem flestir komist sem hraðast gegnum Kópavog og yfir brúna til að njóta lífsins hinum megin. Ólíðandi er að fólk geti ekki notið göngustíga bæjarins í friðsæld. Vinir Kópavogs vilja aðlaðandi umhverfi sem laðar íbúa annarra sveitarfélaga til okkar.